Ferill 590. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1001  —  590. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar, nr. 57/2020 (framlenging á umsóknarfresti).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar (PállM, GuðmT, BjG, BÁ, SilG, SÞÁ, ÞorbG, ÞorS).


1. gr.

    Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fyrirsjáanlegt er að heildartekjur af starfseminni á næstu þremur mánuðum frá því að sótt er um úrræðið lækki um 75 hundraðshluta eða meira í samanburði við sama tíma á árinu 2019.

2. gr.

    Í stað ártalsins „2021“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: 2022.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með samþykkt laga nr. 57/2020 var komið á fót nýju úrræði, tímabundinni heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja vegna aðstæðna sem skapast höfðu í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Í 2. gr. laganna koma fram þau skilyrði sem verða að vera fyrir hendi til þess að fallist verði á beiðni um slíka heimild. Enn fremur er skilyrði að orsakir rekstrarvanda lögaðilans megi rekja til faraldursins en ekki til annarra ástæðna sem eru ótengdar honum, sbr. 1. gr. laganna. Lögin ná til endurskipulagningar þeirra atvinnufyrirtækja sem óskuðu eftir úrræðinu fyrir 1. janúar 2021, sbr. 2. mgr. 23. gr. laganna.
    Þegar lögin voru samþykkt 16. júní 2020 stóðu vonir til að þeir fjárhagslegu erfiðleikar sem rekja mætti til faraldursins stæðu einungis í fáeina mánuði og var því miðað við að fyrirtæki gætu eingöngu sótt um úrræðið fyrir 1. janúar 2021. Nú liggur hins vegar fyrir að áhrif faraldursins vara mun lengur en búist var við í upphafi og ljóst að ferðaþjónusta og tengd starfsemi þarf áfram að glíma við afleiðingar faraldursins langt fram eftir þessu ári. Með hliðsjón af framangreindu er með frumvarpi þessu lagt til að frestur fyrirtækja til að óska eftir tímabundinni heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar verði framlengdur til 1. janúar 2022. Í ljósi þess er einnig lagt til að bætt verði nýju viðmiðunartímabili við 2. mgr. 2. gr. laganna þannig að miðað er við að fyrirsjáanlegt sé að heildartekjur af starfseminni á næstu þremur mánuðum frá því að sótt er um úrræðið lækki um 75 hundraðshluta eða meira í samanburði við sama tíma á árinu 2019. Nauðsynlegt er að unnt verði að miða við þetta tiltekna tímabil á árinu 2019 þar sem breytingin næði ekki tilgangi sínum ef aðeins væri hægt að miða við tiltekið tímabil á árinu 2020, eins og gert er ráð fyrir í núverandi 3. tölul. 2. mgr. 2. gr., enda liggur fyrir að á því ári var starfsemi þeirra fyrirtækja sem úrræðið á að ná til verulega skert frá því sem áður var.